21.9.13

Hvað er í matinn í kvöld?

Við setjum nú stundum inn uppskriftir af mat og kökum hér inn á bloggið en ég verð eiginlega að viðurkenna að oftar en ekki er það maðurinn minn sem sér um að elda hér á bæ. Ég veit, ég veit...ég er heppin kona ;) Þannig að nú ætla ég að bjóða honum að stíga fram og gerast gestabloggari dagsins. Gjörsvovel....

Já takk fyrir það mín kæra :-)  Sem sagt, á föstudagskvöldið ákváðum við að prófa að gera Calzone, sem er pizza brotin saman í hálfmána.  Deigið sem ég nota er úr uppskrift sem ég sá í Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum og hef notað alla tíð síðan, en hún er svona:

6 dl hveiti eða spelt
1 poki þurrger (12 gramma)
1 tsk sykur
1 tsk salt
3 matskeiðar ólífuolía (ég nota extra virgin)
2 dl volgt vatn

Þessu skelli ég öllu saman í hrærivélarskál og læt hnoðast þangað til deigið er komið vel saman. Stundum þarf að bæta smá vatni við aukalega ef blandan er mjög þurr og gengur illa saman.  Deigið set ég svo í skál og breiði rakan klút yfir.  Læt það standa í u.þ.b. 45 mínútur og ætti það að hafa hefast vel á þessum tíma. Þá tek ég deigið og skipti því í tvo parta sem ég hnoða í sitt hvoru lagi og læt svo standa í kannski 20-30 mínútur. Úr þessu verða sem sagt tveir ca. 12 tommu botnar sem ég breiði út með kökukefli og slurki af Durum hveiti undir.

Við ákváðum að gera tvenns konar fyllingu í Calzone, annars vegar nautahakk og hins vegar skinku. Ég gerði tvær botnauppskriftir því við vorum að fá gesti, en nautahakksuppskriftin hér að neðan dugar á í tvær Calzone.

Nautahakks Calzone var gert svona: 
Byrjaði á að fínhakka 1 lauk og steikja á pönnu þar til mjúkur. Setti einn pakka af nautahakki (500 gr.) út á pönnuna og steikti saman þar til nautahakkið var tilbúið.  Svo hellti ég einni krukku af pastasósu frá Dolmio (Classico pastasauce) yfir og lét malla dágóða stund þangað til mesti vökvinn var farinn úr blöndunni. Þá smakkaði ég þetta til með salti.
Eftir að hafa breitt út botninn mokaði ég helmingnum af blöndunni (þetta dugar vel á tvo hálfmána) yfir hálfann botninn (passa að dreifa þessu ekki alveg út á kantinn). Svo skellti ég mozarella osti, ferskri basiliku og rifnum osti yfir.  Hefði gjarnarn viljað eiga Parmesan ost, en prófa það bara næst.  Botninum er svo lokað og brett upp á kantinn.  Henti þessu inn í ofn í kannski 12-15 mínútur (ég hita ofninn alltaf í 200° C á blæstri þegar ég baka pizzur).  Hitastig á ofnum getur verið mismunandi og þá baksturstíminn líka.  Miðið bara við að botninn sé orðinn bakaður, hægt að banka í hann til að sjá hvort hann sé ekki orðinn stökkur.

Skinku Calzone var gert svona:
Setti pizzasósu á pizzabotninn eftir að hafa breitt hann út.  Síðan setti ég nokkrar sneiðar af silkiskorinni hunangsskinku (sem er frá Ali í plastboxum) yfir botninn.  Svo var það meira af mozarella, basiliku, papriku og rifnum osti.  Annars getur fólk bara sett það sem því langar.  Botninn brotinn saman og skellt í ofninn.

Svona var þetta nú gert ... prófaði að setja eina Calzone í pizzaofn sem við eigum, en hann lyftist svo að hann rakst í hitaelementið og brenndi skeifu ofan á eina Calzone :-)


Verði ykkur að góðu!
A

1 comment:

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...