17.10.11

Hrekkjavaka á næsta leyti...Nú verður sífellt algengara hér á landi að fólk geri sér dagamun í kringum þennan dag, 31. október. Það er eitthvað spennandi við þetta fyrirbæri, tilefni til þess að bregða á leik og það er nú ekki svo oft sem fólki gefst færi á að skella sér í grímubúning. Ég held að fullorðna fólkið hafi lúmskt gaman af þessu líka...ekki bara börnin.

Margir tengja þennan sið við Bandaríkin og vissulega er hann sennilega í algjöru hámarki þar en ræturnar má þó finna í keltneskum siðum. Nafnið sjálft Halloween tengist Allra heilagra messu, eða All hallows Even (evening) og er sum sé kvöldið fyrir Allra heilagra messu. Og án þess að ætla að gera þetta að sagnfræðilegum pistli þá má geta þess að hér forðum voru svokölluð Jack-o-lanterns alls ekki skorin út í grasker heldur voru notaðar rófur, kartöflur eða næpur.

Hvað sem því líður þá er bara hið besta mál að hóa í nokkra vini (með eða án barna) og skella sér í búning. Við höfum haft Halloween-teiti síðustu þrjú árin og haft þau barnvæn. Fyrirhafnalítið er til dæmis að biðja gesti um að koma með uppáhaldspizzuna sína en að gestgjafarnir sjái um eftirréttinn. Og ekki er þá verra að hafa hann í skuggalegara laginu.
Nú eru tvær vikur í  hrekkjavöku og fínt að nota tímann til að föndra með smáfólkinu. Vetrarfrí framundan í mörgum skólum og tilvalið að hafa ofan af ungunum með föndri.

Vinsælir grímubúningar:
* draugur
* múmía
* varúlfur
* norn
* galdramaður
* uppvakningur (zombie)
* púki
* skrímsli
* vampíra

.... svo er kannski bara nóg að skella á sig grímu:
Á netinu má finna fjöldan allan af prentanlegum grímum, bara að "gúggla" printable masks og sjá hvað gerist...

Meira síðar,
M

No comments:

Post a Comment

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...