6.11.11

Síðbúin hrekkjavökugleði...

Þá er hrekkjavökugleðinni lokið, var í seinna fallinu hjá okkur þetta árið. Alltaf gaman að gera sér glaðan dag eða glatt kvöld ;) Ákvað að leyfa nokkrum hugmyndum og myndum að fljóta með ef einhver skyldi ætla að halda slíka gleði...

Skelfilega sætar ;)
Eldri sonurinn naut þess í botn að föndra svona krukkur með mömmu sinni og þetta er eins einfalt og það gerist. Það eina sem þarf eru krukkur af ýmsum stærðum, silkipappír, svartan pappír fyrir andlitið, pensil og föndurlím (við notuðum UHU lím, fljótandi ekki stifti en í upphaflegu hugmyndinni er mælt með að nota mod podge límlakk). Svo er bara að gluða líminu á krukkuna, rífa silkipappírinn í lengjur og líma á. Þegar búið er að þekja krukkuna með pappír er gott að pensla yfir hana alla með líminu til að binda enn frekar. Andlitið er svo sett á þegar allt er orðið þurrt og við festum það bara með límstifti.

Hugmyndina að þessum skuggamyndum fundum við hjá góðvinkonu allra húsmæðra, Martha Stewart, og tókst bara bærilega hjá okkur. Áttuðum okkur ekki strax á því afhverju skugginn var ekki nægilega skýr en sáum svo að vandamálið var kertið en það er best að nota lítil kubbakerti (fékk mín í Rúmfatalagernum). Sprittkertin gáfu ekki nægilega mikið ljós.

Þessir bæta dulítið við stemmninguna 


Við náðum nú ekki góðri mynd af ljósablöðrunum okkar en þær komu rosalega vel út og eru einfaldar í framkvæmd: bara að skella glowstick inn í blöðru, binda fyrir og tússa skelfilegt andlit á...
Að vísu ekki okkar blöðrur en sætar samt ;)


Hugmyndin kemur af þessari skemmtilegu síðu og þar má finna fullt af flottum hugmyndum.

Ekki má svo gleyma búningi eldri sonarins (sá yngri var alsæll með þá búninga sem til voru...spiderman, riddari, íþróttaálfurinn). En hann vildi sum sé vera múmía og móðirin lagðist í það verkefni að búa til búning. Þetta var aðeins seinunnara en ég hélt en hafðist á endanum. Það sem ég gerði var:
 • Finna eitthvað hvítt efni (t.d. jersey) og sauma einfaldan heilgalla (muna að skilja eftir op að aftan til að auðvelt sé að fara í gallann, við notuðum tvo af strimlunum til að binda)
 • Rífa gamalt lak niður í strimla
 • Sauma strimlana á heilgallann, láta endana lafa sums staðar niður og hafa þetta svoldið tætt og druslulegt.
 • Sauma nokkurs konar húfu til að geta hulið höfðið að einhverju leyti
 • Dífa öllu saman í tevatn (skelltum smá kaffi með) til þess að fá gamalt útlit á gallann
 • Við keyptum reyndar grímu á andlitið líka en hún var eiginlega bara fyrir og það kom bara vel út að skella smá grænum andlitslit á drenginn.
Múmía verður til

Jæja nóg í bili, hrekkjavakan liðin og hægt að fara að huga að þeirri næstu, nú eða bara að öskudeginum ;)
Þangað til næst,
M

  1 comment:

  1. Flott hrekkjavökuskrautið ykkar og búningurinn er æði:-) knús Stína syst

   ReplyDelete

  Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...