23.11.11

Leitin að jólaskapinu..

...það lætur eitthvað á sér standa þetta árið. En hvað er þá betra en að taka rúnt á veraldarvefnum og finna flottar hugmyndir til að koma sér í gírinn ;)

Mig langar mikið til að gera aðventudagatal/pakkadagatal fyrir drengina mína en finnst fullmikið að græja 48 pakka. Þá poppaði upp sú hugmynd að hafa bara pakka á sunnudögunum í desember, þannig að þá yrði kveikt á kerti í aðventukransinum og einn lítill pakki opnaður. Ég hef séð margar flottar hugmyndir af pakkadagatölum en er ekki alveg búin að festa mig niður á eina...spurning um að fara að ákveða sig þar sem fyrsti í aðventu er á sunnudaginn...???


Þessi flotta hugmynd kemur af blogginu FRYD+DESIGN...óhefðbundin og flott.



Í síðasta tölublaði af Bolig Liv er ágætisklausa um jóladagatöl (einnig hægt að kíkja á síðuna þeirra og fá góðar hugmyndir) og bent á nokkrar góðar síður þar sem annað hvort eru hugmyndir að dagatölum eða hvar hægt er að kaupa skemmtilega glaðninga (nýtist okkur hér á klakanum svo sem ekki...). Þar má m.a. finna þessa síðu sem er stútfull af flottum hlutum og einnig eru nokkrar leiðbeiningar "tutorials". Gæti til dæmis vel hugsað mér að útfæra þennan með færri pökkum:


Einnig benda þeir í Bolig Liv á nokkrar hugmyndir til að komast í jólaskapið, nokkurs konar óefnislegt jóladagatal...og ég ætla að aðlaga nokkrar af hugmyndum þeirra að mínum:

* búa til poppkornslengju (garland)
* gera ris a la mande í kvöldmat...bara upp á grín
* horfa á uppáhaldsjólamyndina
* hengja upp mistiltein...og kyssa elskuna sína (að vísu dultítið lánaður siður en what the hey..)
* búa til heitt súkkulaði
* kíkja á jólagluggana í búðunum og jafnvel kaupa nokkrar gjafir..
* búa til jólaljós úr sultukrukku, eins margar og vill
* hengja upp krans á útidyrahurðina
* fá sér göngutúr í myrkrinu og sjá flottu jólaljósin í hverfinu
* kaupa Nóa konfektkassa, þykjast ætla að geyma hann til jóla en laumast í hann endrum og eins...
* síðast en ekki síst: hlusta á yndisleg og væmin jólalög ;)

Þetta hjálpar mér vonandi til við leitina að jólaskapinu...þigg samt alveg fleiri hugmyndir ;)
o&o
M

16.11.11

Svo lítill tími fyrir allt sem gaman væri að gera...

Kannast einhver við það? Ætla samt að líta framhjá þeirri staðreynd að mikill tími fer í fröken Epli...

Ef ég hefði tíma myndi ég drífa í að gera svona hreindýrahaus. Hef verð með þetta á heilanum síðustu misserin, þ.e. að splæsa í eitt stykki en ákvað nú að athuga hvort hægt væri að finna leiðbeiningar um hvernig mætti gera slíkt sjálfur. Og viti menn, það er allt til á netinu..eins og fröken Epli er dugleg að sýna mér ;)



Fyrir þau ykkar sem hafið tíma og áhuga eru leiðbeiningar hér. Bara að muna að stækka sniðið að vild...hægt að leika sér með það endalaust. Sé alveg fyrir mér einn stóran (fyrir þá sem hafa góða lofthæð) eða bara lítinn og nettan.

Hver veit nema maður drífi sig bara í föndrið :)
o&o
M

13.11.11

Það er komið að því....

...ég verð bara að vera hreinskilin við Hr. Mánudag...


Verð samt að viðurkenna að ég á ekki heiðurinn af þessu bréfi en fannst þetta eins og "talað" út úr mínu hjarta...Því miður man ég ekki hvar ég fann þetta og getið ekki gefið réttmætt kredit fyrir.

Á íslensku útleggst þetta einhvern vegin svona...

Kæri Mánudagur
Mér þykir leitt að gera þetta ekki augliti til auglitis. En ég held að það sé eitt af vandamálunum...ég bara get ekki "feisað" þig lengur. Það er ekki þú sem ert vandamálið heldur ég. Við bara viljum ólíka hluti...allan tímann sem ég er með þér er ég að hugsa um Föstudag. Ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt meira, ég bara get þetta ekki lengur. Fyrirgefðu...
Sjáumst síðar...kannski

Ást og kossar
M

12.11.11

Bókstafir...


...hafa verið að heilla mig undanfarið. Finnst svoldið flott að pota þeim hér og þar...á hillur og veggi, í glugga...Ég hef hins vegar ekki séð mikið framboð af þeim í verslunum hér, nema kannski í Tiger en þeir eru t.d. að selja pappastafi sem hægt er að skreyta sjálfir og einnig keramikstafi. Ég er hins vegar að hugsa um að græja þetta bara sjálf og geta þá haft stafina algerlega eftir mínu höfði. Þarf reyndar að kalla til einn aðstoðarmann, nefnilega pápa gamla, sem á þær græjur sem til þarf í verkið :) Pælingin er að prenta út staf í þeirri stærð sem mig langar í, klippa hann út og teikna á t.d. mdf-við. Svo er bara að saga stafinn út, pússa og mála að vild...sjáum hvernig það fer...

Kasparas regnbue

Kasparas regnbue
Það getur líka verið flott að raða saman bókstöfum í orð, eftir því sem við á:

Fjeldborg


Gæti vel hugsað mér að skrifa HEIMA og líma gamalt landakort framan á (...)

Flott í eldhúsið og nauðsynlegt að minna sig á þetta ;)

Þá er ekki eftir neinu að bíða, bara vinda sér í verkið!
O&O
M

6.11.11

Síðbúin hrekkjavökugleði...

Þá er hrekkjavökugleðinni lokið, var í seinna fallinu hjá okkur þetta árið. Alltaf gaman að gera sér glaðan dag eða glatt kvöld ;) Ákvað að leyfa nokkrum hugmyndum og myndum að fljóta með ef einhver skyldi ætla að halda slíka gleði...

Skelfilega sætar ;)
Eldri sonurinn naut þess í botn að föndra svona krukkur með mömmu sinni og þetta er eins einfalt og það gerist. Það eina sem þarf eru krukkur af ýmsum stærðum, silkipappír, svartan pappír fyrir andlitið, pensil og föndurlím (við notuðum UHU lím, fljótandi ekki stifti en í upphaflegu hugmyndinni er mælt með að nota mod podge límlakk). Svo er bara að gluða líminu á krukkuna, rífa silkipappírinn í lengjur og líma á. Þegar búið er að þekja krukkuna með pappír er gott að pensla yfir hana alla með líminu til að binda enn frekar. Andlitið er svo sett á þegar allt er orðið þurrt og við festum það bara með límstifti.

Hugmyndina að þessum skuggamyndum fundum við hjá góðvinkonu allra húsmæðra, Martha Stewart, og tókst bara bærilega hjá okkur. Áttuðum okkur ekki strax á því afhverju skugginn var ekki nægilega skýr en sáum svo að vandamálið var kertið en það er best að nota lítil kubbakerti (fékk mín í Rúmfatalagernum). Sprittkertin gáfu ekki nægilega mikið ljós.

Þessir bæta dulítið við stemmninguna 


Við náðum nú ekki góðri mynd af ljósablöðrunum okkar en þær komu rosalega vel út og eru einfaldar í framkvæmd: bara að skella glowstick inn í blöðru, binda fyrir og tússa skelfilegt andlit á...
Að vísu ekki okkar blöðrur en sætar samt ;)


Hugmyndin kemur af þessari skemmtilegu síðu og þar má finna fullt af flottum hugmyndum.

Ekki má svo gleyma búningi eldri sonarins (sá yngri var alsæll með þá búninga sem til voru...spiderman, riddari, íþróttaálfurinn). En hann vildi sum sé vera múmía og móðirin lagðist í það verkefni að búa til búning. Þetta var aðeins seinunnara en ég hélt en hafðist á endanum. Það sem ég gerði var:
  • Finna eitthvað hvítt efni (t.d. jersey) og sauma einfaldan heilgalla (muna að skilja eftir op að aftan til að auðvelt sé að fara í gallann, við notuðum tvo af strimlunum til að binda)
  • Rífa gamalt lak niður í strimla
  • Sauma strimlana á heilgallann, láta endana lafa sums staðar niður og hafa þetta svoldið tætt og druslulegt.
  • Sauma nokkurs konar húfu til að geta hulið höfðið að einhverju leyti
  • Dífa öllu saman í tevatn (skelltum smá kaffi með) til þess að fá gamalt útlit á gallann
  • Við keyptum reyndar grímu á andlitið líka en hún var eiginlega bara fyrir og það kom bara vel út að skella smá grænum andlitslit á drenginn.
Múmía verður til

Jæja nóg í bili, hrekkjavakan liðin og hægt að fara að huga að þeirri næstu, nú eða bara að öskudeginum ;)
Þangað til næst,
M

    Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...