Við vorum víst búnar að lofa einhverjum uppskriftinni af ungversku gúllassúpunni sem rætt var um hér. Hún var elduð aftur og við mikla lukku enda er þetta afskaplega góð súpa sem óhætt er að mæla með.
Ungversk gúllassúpa:
700 gr nautagúllas
2 laukar
3 hvítlauksrif
3 msk olía til steikingar
1 1/2 msk paprikuduft
1 1/2 l vatn
2 msk kjötkraftur eða 2 teningar
1 tsk kúmenfræ
1 - 2 tsk meiran (ég notaði óreganó)
700 g kartöflur (ca. 8 meðalstórar)
2-3 gulrætur
2 paprikur
4-5 tómatar eða 1 dós niðursoðnir
...ég átti hálft butternut squash og bætti því út í, einnig er gott að setja rófur eða eitthvað annað rótargrænmeti.
1. Laukur saxaður og hvítlauksrifin pressuð. Kjötið steikt í olíunni ásamt lauk og hvítlauk.
2. Paprikuduftinu bætt út í ásamt vatninu, kjötkrafti, kúmeni og meiran/óreganó. Látið sjóða við vægan hita í ca. 40 mín.
3. Kartöflum, gulrótum, papriku og butternut squashi bætt út í pottinn og soðið áfram við vægan hita í ca. 30 mín.
4. Kryddað eftir þörfum....við bættum dulítið meira af óreganóinu og paprikuduftinu við, ásamt dass af salti.
5. Gott að sáldra steinselju yfir áður en borið er á borð og mjög gott að hafa sýrðan rjóma með...að ógleymdu heimabökuðu brauði.
Uppskriftin kemur úr gömlu góðu Af bestu lyst 1.
Eigið ljúfan dag...löng helgi framundan!
m
No comments:
Post a Comment